Við vinnum fyrir þig

Translate to

VR stefnir ríkinu!

Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem komu til framkvæmdar um áramót. Félagið hefur óskað eftir flýtimeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Eins og kunnugt er voru samþykkt lög frá Alþingi sem meðal annars fela í sér skerðingu á bótarétti og ljóst að þessi breyting kemur mjög illa niður á stórum hópi bótaþega. VR telur að ríkinu hafi verið óheimilt að skerða rétt félagsmanna til atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði.

VR telur í stefnu sinni að um sé að ræða brot á stjórnarskrá þar sem segir að að með lögum skuli tryggja öllum sem þess þurfa rétt til aðstoðar og breytingarnar gangi gegn 76. grein stjórnarskrárinnar. Einnig telur VR að brotinn sé eignaréttur en áunnin réttindi teljast  eign sem nýtur verndar eignaréttarákvæða stjórnarskrárinnar.  Telur VR að um sé að ræða afturvirka lagasetningu sem brýtur gegn 27. grein stjórnarskrárinnar. Engar málefnalegar ástæður séu til breytinganna, meðalhófs og jafnræðis hafi ekki verið gætt og ekki sé nægur fyrirvari eða aðlögun fyrir félagsmenn.

Það er ljóst að niðurstaða í þessu máli mun hafa áhrif á alla þá sem verða fyrir barðinu á þessum breytingum og því fróðlegt að sjá hvað gerist. Mörg stéttarfélög og fleiri aðilar, svo sem sveitarfélög,  hafa stigið fram og mótmælt þessum breytingum ríkisstjórnarinnar og bent á að þetta muni koma þeim hópi verst sem hvað síst má við því.

Þetta útspil ríkisstjórnarinnar er meðal margra vafasamra aðgerða nú þegar kjarasamningar eru á næsta leyti og öruggt að það mun ekki verða til að auðvelda samningaumleitanir.