Við vinnum fyrir þig

Translate to

Verka­lýðs­hreyfingin okkar

Undanfarið hefur verið mikil umræða um verkalýðshreyfinguna. Sitt sýnist hverjum, ýmis sjónarmið hafa komið fram og hafa flestir skoðanir á verkalýðshreyfingunni sem kemur ekki á óvart og er reyndar mjög gott. Umræða um málefni hreyfingarinnar einkennist hins vegar of oft af hrópum og köllum milli einstakra aðila og verður oft til þess fallin að ákveðnir aðilar taka sviðið og einangra málefnin. Það sem vel er gert kemst yfirleitt ekki á samfélagsmiðlana og nýtur ekki vinsælda í umræðunni.

Fjölmiðlar sýna nokkrum aðilum áhuga helst þeim sem beina spjótum sínum að ákveðum persónum á persónulegum nótum en ekki almenn umræða á faglegum nótum um hvað má betur gera og hvernig við gerum það með styrk okkar og stærð. Á meðan umræðan í þóðfélaginu beinist að metoo-byltingunni viðgengst grímulaust einelti gagnvart ákveðum persónum innan hreyfingarinnar á samfélagsmiðlunum sem er engum til framdráttar. Að vinna hugsjónum sínum farveg og koma með ólíkar áherslur inn í umræðuna um verkalýðsmál er nauðsynlegt og fögnum við því.  Það mættu fleiri láta að sér kveða.

Undirrituð er formaður í mjög vaxandi stéttarfélagi á landsbyggðinni sem telur 3-4000 félagsmenn. Það er umfangsmikið, krefjandi og skemmtilegt starf að vinna að hagsmunum launaflólks. Forystufólk í stéttarfélögunum vinnur ekki einsamalt. Í Bárunni, stéttarfélagi er mikið af góðu fólki. Stjórn, trúnaðarmenn og félagsmenn eru ósérhlífið fólk sem mætir oftast eftir erfiðan vinnudag á fundi þar sem félagslegar ákvarðanir eru teknar. Að ógleymdu því starfsfólki sem vinnur á skrifstofum félaganna. Það er verið að vinna mikið og gott starf í félögum alls staðar á landinu.

Eins og áður hefur verið komið inn á eru verkefnin margþætt en snúa öll að því að finna leiðir til þess að bæta og lagfæra kjör félagsmanna sem enda fyrri dómstólum ef með þarf. Starfsgreinasamband Íslands er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi. Mikill baráttuandi var meðal þeirra félaga sem fólu SGS kjarasamningsumboðið fyrir síðustu samningagerð (2015). Af 19 félögum innan SGS voru 15 sem fólu SGS umboðið. Báran, stéttarfélag var eitt þeirra félaga. Krafan um þrjúhundruð þúsund króna lágmarkslaun innan þriggja ára kom frá grasrótinni. Við getum öll verið sammála um að þetta eru ekki há laun en samt  varð þetta hörð barátta sem endaði með 2 og ½ dags verkfalli 10 þúsund félagsmanna á landsbyggðinni til þess að samningar næðust. Grasrótin varðaði leiðina og stóðu félagsmenn vaktina í verkfallsvörslu. Það stóð ekki á forystumönnum að taka þennan slag eða aðra slagi fyrir félagsmenn innan hreyfingarinnar. Það var á brattann að sækja. Samtök atvinnulífsins höfnuðu þessar kröfu algjörlega og  töldu þetta óábyrgt og galið. Samtakamátturinn innan okkar raða var hinsvegar órjúfanlegur og almenningur í landinu eða 9 af hverjum 10 studdu þessa kröfu sem skilaði okkur þessari niðurstöðu. Þetta er máttur samstöðunnar.

Að vera í opinberum fjölmiðlaslag innan okkar eigin félaga skilar ekki neinum árangri fyrir félagsmenn. Þvert á móti er það vatn á myllu viðsemjenda okkar og ekki til þess fallið að ná árangri fyrir bættum kjörum okkar félagsmanna. Horfum til framtíðar, vinnum saman því sundrung skilar ekki árangri.

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélags