Lög Bárunnar, stéttarfélags

Lög Bárunnar stéttarfélags

 

I. Kafli.  Heiti félagsins og hlutverk

1. gr.  Nafn félagsins og félagssvæði

Félagið heitir Báran, stéttarfélag. Starfssvæði þess er Sveitarfélagið Árborg, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Bláskógabyggð, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Hrunamannahreppur.

 2. gr.  Varnarþing og aðild

Félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands sem eru aðilar að Alþýðusambandi Íslands. Félagið getur gerst aðili að öðrum landssamböndum ef það er talið eiga við vegna starfsgreina. Heimili félagsins og varnarþing er á Selfossi.

3. gr.  Tilgangur félagsins

Tilgangur félagsins er:

-Að sameina alla starfandi launamenn sem starfa á félagssvæðinu.

-Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna.

-Að vinna að fræðslu og menningarmálum.

-Að hafa samstarf við önnur stéttarfélög.

4. gr.  Starfsgreinadeildir

Að fengnu samþykki félagsfundar er heimilt að stofna innan félagsins starfsgreinadeildir, sem þá taka formlega til starfa frá og með næsta aðalfundi félagsins. Einnig er heimilt á sama hátt að taka í félagið í heild önnur verkalýðsfélög sem starfa sjálfstætt í einstökum starfsgreinum, enda hafi borist um það formleg umsókn frá viðkomandi félagi.

Stjórn hverrar deildar skipa 3 menn: Formaður, varaformaður og ritari. Þá skal kjósa 3 varamenn. Stjórnin skal kosin á aðalfundi viðkomandi deildar sem halda skal fyrir apríllok ár hvert og skal kjöri lýst á aðalfundi félagsins.

Stjórn félagsins hefur yfirumsjón með starfsemi deilda og fjármálum þeirra. Sérkostnaður vegna starfsemi deildanna skal samkvæmt ákvörðun aðalstjórnar greiddur úr félagssjóði. Ákvæði þessarar greinar skerða ekki valdsvið trúnaðarráðs.

5. gr.  Inngönguskilyrði

Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem:
a) Vinna, hafa unnið eða eru að hefja störf er falla undir kjarasamninga þeirra landssambanda er getið er í 2. gr. og þeirra sérkjarasamninga sem gerðir eru af hálfu félagsins.

 1. b) Eru fullra 16 ára að aldri.
  c) Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ, sem viðkomandi hafa verið í.

6. gr.  Innganga í félagið

Sá sem óskar inngöngu í félagið skal senda skriflega inntökubeiðni til stjórnar félagsins eða þess sem hún vísar til. Inntökubeiðnin skal borin upp á fundi stjórnar og samþykki meirihluti mættra stjórnarmanna inntökubeiðnina er umsækjandi orðinn löglegur félagi. Felli stjórnarfundur inntökubeiðni skal félagsfundur úrskurða um inngöngubeiðni. Synji félagsfundur um inngöngu í félagið getur aðili skotið málinu til viðkomandi landssambands og miðstjórnar ASÍ en úrskurður félagsfundar gildir þar til landssamband eða miðstjórn ASÍ hafa úrskurðað annað.

Fái félagið greitt félagsgjald frá starfsmanni sem starfar á félagssvæðinu en hefur ekki óskað inngöngu skal um áramót ár hvert óska staðfestingar starfsmanns á inngöngu í félagið.

7. gr.  Aukafélagar

Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga unglinga innan 16 ára aldurs, þá sem greiða til félagsins en hafa ekki óskað eftir inngöngu sbr. 6. gr. og aðra sem stunda vinnu samkvæmt þeim samningum sem félagið hefur gert og starfa á starfssvæði félagsins um stundarsakir en eru félagar í öðru félagi.

Aukafélagar greiða fullt félagsgjald meðan þeir eru á félagssvæðinu, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi. Skyldur félagsins gagnvart aukafélögum eru hinar sömu og gagnvart aðalfélögum.

8. gr.  Úrsögn úr félaginu

Úrsögn úr félaginu getur því aðeins átt sér stað að sá sem hyggst segja sig úr félaginu sé skuldlaus. Úrsögn skal vera skrifleg og afhendast skrifstofu félagsins. Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst og þar til vinnustöðvuninni hefur verið aflýst, ef hún hefur verið samþykkt.

Óheimilt er að segja sig úr félaginu til þess að taka upp vinnu meðlima félags innan Alþýðusambandsins, sem lagt hefur niður vinnu vegna deilu.

II. kafli.   Réttindi og skyldur félagsmanna, réttindamissir, brottrekstur

9. gr.  Réttindi og skyldur félagsmanna

Réttindi félagsmanna eru eftirfarandi:

 1. a) Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum svo og kjörgengi til trúnaðarstarfa. Atkvæðisréttur um kjarasamninga eftir nánari ákvörðun félagsfundar.
  b) Réttur á styrkjum úr sjóðum félagsins, að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerðum sjóðanna.
  c) Réttur til afnota af orlofshúsum félagsins og öðrum sameiginlegum eignum eftir því sem reglugerðir og samþykktir félagsins kveða á um.
 2. d) Réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem samningar félagsins ákveða hverju sinni.
  e) Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekenda á samningum.

10. gr.  Skyldur félagsmanna

Skyldur félagsmanna eru:

 1. a) Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum. b) Að greiða félagsgjöld samkvæmt samþykktum félagsins.
  c) Að stuðla að því að ófélagsbundið launafólk gangi í félagið og tilkynna til félagsins brot á lögum og samþykktum félagsins.

Enginn má vera í félaginu sem er atvinnurekandi eða verkstjóri í það stórum stíl, að hann geti haft áhrif á kaupgjald eða lengd vinnutíma. Undantekningu má þó gera á þessu með samþykki miðstjórnar Alþýðu­sambands Íslands.

11. gr.  Brot á lögum félagsins

Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi sem ákveður með einföldum meirihluta atkvæða hvort veita skuli áminningu eða víkja félagsmanni úr félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar.

Hver sá maður er rækur úr félaginu í lengri eða skemmri tíma sem að áliti félagsfundar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, bakað því tjón eða gert því eitthvað til vansa, svo og hver sem ekki hlýðir lögum þess eftir gefna áminningu í félaginu.

Úrskurði félagsfundar um áminningu eða brottvísun félagsmanns má vísa til viðkomandi landssambands og Alþýðusambandsins, en úrskurður félagsfundar gildir þar til sambandið ákveður annað.

Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum félagsfundi.

III. Kafli.   Trúnaðarmenn félagsins, skipan þeirra og hlutverk

12. gr.  Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skipa sjö menn: Formaður, varaformaður og fimm meðstjórnendur. Varamenn skulu vera þrír og skulu þeir taka sæti í forföllum stjórnarmanna í þeirri röð sem þeir eru kosnir til sem fyrsti, annar og þriðji varamaður. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár.

Kosningu stjórnar skal haga þannig að kjósa skal á víxl, þannig að annað árið er kosinn formaður, og tveir meðstjórnendur og varamennirnir þrír en hitt árið varaformaður og þrír meðstjórnendur.

Stjórn félagsins hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda, fylgist með fjárreiðum félagsins og ber upp reikninga þess á aðalfundum. Stjórnin fer sameiginlega með ábyrgð á sjóðum félagsins.

Í starfs- og siðareglum félagsins skal fjalla nánar um ábyrgð, skyldur og verkefni stjórnar og annarra þeirra sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið.

13. gr.  Formaður félagsins

Formaður kveður til allra funda og stjórnar þeim, heimilt er honum þó að setja fundarstjóra í sinn stað. Formaður eða starfsmaður í umboði hans undirritar allar gerðir félagsins. Formaður gætir þess að allir starfsmenn geri skyldur sínar. Hann hefur umsjón með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og reglum sé framfylgt í öllum greinum.

14. gr.  Fundargerðir

Stjórn heldur allar gerðarbækur félagsins og færir inn í þær fundargerðir stjórnar og félags, lagabreytingar og niðurstöðutölur aðalreiknings.

Heimilt er stjórn að láta hljóðrita fundi, upptökurnar skal varðveita á skrifstofu félagsins í minnst fimm ár. Upptökurnar skal varðveita sem trúnaðarmál.

15. gr.  Skrifstofa félagsins

Skrifstofa félagsins innheimtir árgjöld félagsins og aðrar tekjur þess, hefir á hendi bókfærslu félagsins og sjóði þess skal hún geyma á vöxtum eftir nánari fyrirmælum stjórnar. Síðan skal hún annast bréfaskriftir félagsins í samráði við stjórn og geyma skjöl þess.

16. gr.  Trúnaðarráð

Í trúnaðarráði eiga sæti: Stjórn félagsins, varamenn stjórnar og þeir fullgildir félagsmenn sem kosnir hafa verið trúnaðarmenn á vinnustöðum.

Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarráðs og kveður það til fundar með þeim hætti sem hann telur heppilegastan.

Hlutverk trúnaðarráðs er m.a.:
-Að stuðla að og efla fræðslu trúnaðarmanna.
-Að gera tillögur um stefnu félagsins í mikilsverðum málum.
-Að gera tillögur um atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun.
-Að leggja mat á samninga áður en þeir eru bornir undir atkvæði.

Trúnaðarráð er stjórn félagsins til ráðuneytis og þar skulu rædd þau mál sem varða einstaka vinnustaði og ráðstafanir til að gæta þar hagsmuna félagsins og einstakra félagsmanna. Á fundum trúnaðarráðs skulu trúnaðarmenn gefa skýrslur um stöðu mála hver á sínum vinnustað. Formaður getur og í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarráð þegar félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi, og ræður úrslitum í slíkum málum einfaldur meirihluti fundar. Skulu ákvarðanir slíkra funda færast í gerðabók félagsstjórnar.

17. gr.  Uppstillinganefnd

Innan félagsins starfar uppstillinganefnd, kosin á aðalfundi ár hvert. Hún skal skipuð þrem félagsmönnum og einum til vara. Verkefni hennar er að gera tillögur um fulltrúa í stjórn og varamenn þeirra, í samræmi við reglur félagsins um kjör stjórnar svo og fulltrúa í önnur embætti samkvæmt lögum félagsins. Nefndinni ber að leggja fram tillögur sínar eigi síðar en fyrir lok marsmánaðar. Skulu þær vera félagsmönnum til sýnis á skrifstofu félagsins fram að aðalfundi. Nefndin skal jafnframt um leið auglýsa störf sín og gefa félagsmönnum frest til loka aprílmánaðar til að bjóða sig fram og/ eða bera fram aðrar tillögur. Tillögur nefndarinnar skulu einnig kynntar á heimasíðu félagsins og í staðarblöðum á félagssvæði Bárunnar, stéttarfélags í síðasta lagi hálfum mánuði fyrir aðalfund.

Skriflegt samþykki þeirra fulltrúa sem stungið er upp á skal fylgja hverri tillögu. Í enga tillögu má taka nöfn þeirra sem hafa gefið skriflegt leyfi til að nafn þeirra sé sett á aðra tillögu.

Til að tillaga sé gild verða bæði þeir sem tillöguna bera fram og þeir sem stungið er upp á að vera félagar í Bárunni, stéttarfélagi.

18. gr.  Samninganefnd

Trúnaðarráð gegnir störfum samninganefndar félagsins. Hlutverk hennar er að annast um kjarasamningsgerð fyrir hönd félagsins. Formaður félagsins skal vera formaður samninganefndar og varaformaður í forföllum hans. Samninganefnd er heimilt að skipta með sér verkum eftir samningssviðum.

19. gr.  Kjörstjórn

Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins. Kjörstjórnin skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarráð þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsins og/eða lögum ASÍ skipar miðstjórn ASÍ þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Kjörstjórn skal í öllu fara eftir reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur. Þegar allsherjaratkvæðagreiðsla er viðhöfð eru úrslit hennar endanleg afgreiðsla félagsins á því máli sem kosið var um.

20. gr.  Siðanefnd, starfs- og siðareglur

Félagið setur sér starfs- og siðareglur vegna aðkomu fulltrúa félagsins að málum félagsmanna og félagsins sjálfs. Starfs- og siðareglum skal breytt á aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti afgreiðslu. Í starfs- og siðareglum félagsins skal fjalla nánar um ábyrgð, skyldur og verkefni stjórnar og annarra þeirra sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið, þ.á.m. boðun funda og dagskrá, meðferð mála og ákvarðanir, hæfi og trúnaðarskyldu.

Aðalfundur félagsins kýs siðanefnd annað hvert ár að fenginni tillögu uppstillinganefndar. Um skipan siðanefndar og hlutverk svo og meðferð kærumála og viðurlög skal fjallað í starfs- og siðareglum félagsins.

Stjórn félagsins setur einnig reglur um ferðakostnað, risnu og gjafir. Þeim skal breytt á aðalfundi með sama hætti og starfs- og siðareglum félagsins.

IV. Kafli.   Fundir

21. gr.  Félagsfundur

Félagsfundur fer með æðsta vald í félagslegum málefnum félagsins á milli aðalfunda. Fundi skal halda í félaginu þegar stjórninni þykir ástæða til, eða þegar 30 félagsmenn krefjast þess skriflega, enda sé tilgreint fundarefni af þeim sem kröfuna gera.

Krefjist fundarmaður þess að skrifleg atkvæðagreiðsla fari fram á fundi, skal fundarstjóri verða við því.

Fundir eru lögmætir ef til þeirra er boðað með að lágmarki tveggja sólarhringa fyrirvara eða, í samræmi við starfs- og siðareglur félagsins. Þó getur stjórn boðað til fundar með styttri fyrirvara ef um vinnudeilur er að ræða, eða sérstakar ástæður gefa tilefni til þess.

Ákvörðun félagsfundar er bindandi þegar einfaldur meirihluti mættra félagsmanna hefur samþykkt hana nema annað sé sérstaklega áskilið í lögum félagsins eða reglugerðum.

Ef kjósa skal fulltrúa til sambandsþings skal boða félagsfund með sjö daga fyrirvara.

22. gr.  Aðalfundur

Aðalfundur er æðsta vald í félagslegum og fjárhagslegum málefnum félagsins. Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en fyrir maílok ár hvert. Hann skal boðaður með dagskrá með minnst 7 daga fyrirvara og er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Á aðalfundi skulu lagðir fram reikningar félagsins endurskoðaðir til athugunar og samþykktar, en stjórn er skylt að láta löggiltan endurskoðanda yfirfara reikninga félagsins í lok reikningsárs.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
1. Skýrsla formanns fyrir liðið starfsár.
2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
3. Kosning stjórnar.
4. Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna og eins til vara.

 1. Kosning til annarra stjórna og ráða sem lög og reglugerðir félagsins gera ráð fyrir.
 2. Kosning siðanefndar annað hvert ár.
 3. Breytingar á starfs-og siðareglum stjórnar og reglum um ferðakostnað, risnu og gjafir ef tillögur þar um liggja fyrir.
  8. Laga- og reglugerðarbreytingar, ef fyrir liggja.
  9. Ákvörðun félagsgjalda og hlutfall þeirra í vinnudeilusjóð.
  10. Önnur mál.

Ákvörðun aðalfundar er bindandi þegar einfaldur meirihluti mættra félagsmanna hefur samþykkt þær nema annað sé sérstaklega áskilið í lögum félagsins eða reglugerðum.

 

 

V. Kafli.   Fjármál

23. gr.  Félagsgjöld

Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi og skulu innheimt sem ákveðið hlutfall af launum.

Af tekjum félags skal greiða öll útgjöld þess, skatt til ASÍ og annan kostnað, er stafar af samþykktum félagsfunda eða stjórnar. Við meiri háttar ráðstafanir á eigum félagsins þarf samþykki félagsfundar.

 

24. gr.  Ársreikningur

Semja skal ársreikning fyrir félagið í heild og sjóði þess samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju. Nánar er fjallað um ársreikning í starfs- og siðareglum félagsins. Um fjármál félagsins fer skv. lögum og viðmiðunarreglum ASÍ.

 

25. gr.  Skoðunarmenn reikninga og endurskoðandi

Tveir félagslegir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Skoðunarmenn eru kosnir á aðalfundi. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé varið til þeirra verkefna sem félagsfundur og/eða stjórn hafa ákveðið. Auk athugunar hinna félagskjörnu skoðunarmanna er stjórn félagsins skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsárs. Ársreikningar félagsins skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins, til skoðunar fyrir félagsmenn sjö dögum fyrir aðalfund.

 

26. gr.  Sjóðir

Sjóðir í eigu eða vörslu félagsins skulu vera: Félagssjóður, sjúkrasjóður, orlofssjóður, vinnudeilusjóður, svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að vera. Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð sem samþykkja þarf á aðalfundi.

Félagssjóður greiðir allan almennan kostnað af starfsemi félagsins, svo sem því sameiginlega starfi sem unnið er og þeim kostnaði sem félagið ber af aðild að landsamböndum eða heildarsamtökum launafólks. Að öðru leyti skal hver sjóður standa straum af sínum rekstri, samkvæmt reglugerð viðkomandi sjóðs.

Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi að fengnum tillögum frá stjórn félagsins. Sjóðsstjórn getur lagt fram tillögur að breytingu á reglugerð fyrir félagsstjórn. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum, í ríkistryggðum skuldabréfum í bönkum eða í sparisjóðum, í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign eða á annan hátt er stjórn félagsins og trúnaðarráð metur tryggan. Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.

VI. Kafli.   Lagabreytingar

27. gr.  Sambandsslit

Komi fram tillaga um að lögbinda félagið við eitthvert annað félag eða félagasamband, eða slíta slíku sambandi, þarf til þess sama atkvæðamagn og um lagabreytingar. Kjósa skal með allsherjaratkvæðagreiðslu um slit á slíku sambandi.

28. gr.  Lagabreytingar

Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins, ef breytingin hefur áður verið boðuð í fundarboði og rædd á löglegum félagsfundi. En minnst viku millibil skal þó vera á milli þeirra funda sem breytingartillögurnar eru ræddar á.

Allar breytingartillögur skulu lagðar fram við fyrri umræðu, en atkvæða­greiðslur skulu fara fram við síðari umræðu. Allar breytingartillögur skulu vera skriflegar.

Breytingar á lögunum ná því aðeins gildi, að þær séu samþykktar með tveim þriðju greiddra atkvæða og koma til framkvæmda er miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur staðfest þær.

Tillögu til laga- eða reglugerðarbreytinga sem einstakir félagsmenn vilja koma á framfæri skal skila til félagsstjórnar eigi síðar en fyrir lok aprílmánaðar.

29. gr.  Félagsslit

Komi fram tillaga um að slíta félaginu, verður það því aðeins gert, að ¾ hlutar allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu.

Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað verkalýðsfélag með sama tilgangi er stofnað á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna, að áskildu samþykki miðstjórnar A.S.Í.

Sami háttur skal á hafður um varðveislu eigna félagsins ef starfsemi þess leggst niður án þess að formleg samþykkt þar um hafi verið gerð.

Um úrsögn úr ASÍ eða samtökum sem eiga aðild að ASÍ fer skv. lögum ASÍ eins og þau eru á hverjum tíma.

Þannig samþykkt á aðalfundi Bárunnar, stéttarfélags þann 22. maí 2017

 

Tilkynningar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Contracts in English 

The yellow one is for jobs in the puplic sector and is the main one.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

,

 
,

Układ zbiorowy

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frímann Orlofsvefur

 

 

 

 

 

 

 

ERUM VIÐ AÐ LEITA AÐ ÞÉR?

Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

Hefur þú áhuga á að starfa með okkur?

Heimilt er að kjósa einn trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem starfa 5-50 starfsmenn og tvo trúnaðarmenn ef starfsmenn eru fleiri ein 50.

Endilega hafið samband við okkur hjá Bárunni, stéttarfélagi og við komum á kosningu sem allra fyrst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Auglýsingar – tilkynningar

VIRK

Ráðgjöf á sviði starfsendurhæfingar

Sími 480-5000
virk@sudurland.is

 

Upplýsingar um staðgreiðslu

Staðgreiðsla 2021

Nánar: www.rsk.is

 

Báran stéttarfélag | Lög Bárunnar, stéttarfélags