Við vinnum fyrir þig

Translate to

Suðurland, nýlenda Íslands?

 

Þessi grein birtist í Sunnlenska í morgun:

 

Hvernig stendur á því að eitt auðugasta landssvæði Íslands, hvort heldur talað er um náttúruauðæfi eða ræktað land, búskap og matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og náttúrugersemar, skuli skila íbúum sínum jafn lágum tekjum og raun ber vitni?

Suðurland sér stærstum hluta landsmanna fyrir raforku og hita sem skapar atvinnu og lífsgæði á stór Reykjarvíkursvæðinu og víðar, framleiðir mestan mat í fyrir stærstan hluta landsmanna, sér langstærstum hluta erlendra ferðamanna fyrir gistingu, afþreyingu og ógleymanlegri upplifun auk þess að reka öfluga verslunar og þjónustukjarna fyrir heimamenn og gesti. Gríðarlegt fjármagn streymir hér um sýslurnar og mikil uppbygging hefur átt sér stað á síðustu árum og áratugum, ekki síst í ferðatengdri þjónustu. Gistiplássum hefur fjölgað stórlega, afþreying fyrir ferðamenn er orðin umtalsverður hluti ferðaþjónustunnar og að auki þá hefur sá tími sem útlendingar ferðast um landið lengst. Hestaferðir, jeppaferðir og snjósleðaferðir verða sífellt vinsælli meðal erlendra ferðamanna.

Af þessum upplestri skyldi ætla að flestir sunnlendingar keyrðu um á lúxusjeppum og gengju í Armani eða Dior með gullhring á hverjum fingri. Grætt á daginn og grillað á kvöldin syndrómið, þið skiljið. Suðurland, þar sem smjör drýpur af hverju strái. Eða hvað?

Tökum ferðamennskuna sem dæmi.

Forsvarsmenn margra þessara fyrirtækja tala hátt um að hjá þeim sé falinn helsti vaxtarbroddur í íslensku efnahagslífi. Pólitískir leiðtogar okkar taka undir þetta og leggja til umtalsvert fjármagn til kynningar á landi og þjóð. Spár segja sumar að hingað muni koma um milljón ferðamenn á ári innan skamms tíma. Hagur fyrir samfélagið ekki satt? Kannski.

Fyrir starfsfólk á lágmarkslaunum hljóta þessar raddir að hljóma ankannalega. Vaxtarbroddur fyrir hvern? Launin sem almennt eru greidd í þessum ferðatengdu atvinnugreinum er svo lág að jaðrar við þjóðarskömm. Og ekki halda að ég sé að sjá ofsjónum yfir launum í öðrum greinum. Laun á Íslandi eru einfaldlega of lág, bara svo það sé á hreinu. En meðal forystumanna í ferðaþjónustunni virðist það vera keppikefli að halda launum niðri með ýmiskonar útfærslum á launagreiðslum sem eiga lítið skylt við siðferði. Laun undir lágmarkstöxtum, jafnaðarlaun þar sem verulega hallar á launþegann, laun greidd í fríðindum, ekki reiknað orlof. Ég get haldið áfram.

Svo ég verði nú ekki tekinn af lífi fyrir þessi skrif þá er mér ljúft og skilt að geta þess að til eru margar heiðarlegar undantekningar á þessu meðal ferðaþjónustuaðila sem eru til hreinnar fyrirmyndar hvað varðar laun og aðbúnað starfsfólks. Þessi fyrirtæki má þekkja úr með því að skoða starfsmannaveltu undanfarinna ára. Fólk hefur nefnilega tilhneygingu til að halda sig við þann vinnuveitanda þar sem því líður vel og er ánægt. Að sama skapi helst hinum fyrirtækjunum yfirleitt illa á starfsfólki.

Þrátt fyrir stanslausa aukningu í ferðamannastraumi þá virðist lítið af þeim peningum sem eytt er á svæðinu skila sér til samfélagsins.  

Ég tek hér dæmi af ferðaþjónustunni því það er nærtækast. Þetta á því miður við um aðrar atvinnugreinar svo sem matvælaframleiðslu og aðra verslun og þjónustu en við ferðamenn líka en umfjöllun um þær bíður betri tíma. En hún mun koma.

Og ekki kenna stéttarfélögunum um þessa þróun. Staðreyndirnar eru þær að það getur munað 10 – 20% og þaðan af meira í launum hvort fólk vinnur á Stór Reykjarvíkursvæðinu eða fyrir austan Hellisheiði. Fólk á sömu samningum og í sömu störfum.

Hvað veldur? Getur það haft með hugarfar okkar sunnlendinga að gera? Afhverju sættum við okkur við lægri laun en annarstaðar gerast? Kannski hér sé sama tregðulögmál að verki og virðist ríkjandi í jöfnun launa milli karla og kvenna. Finnst okkur í lagi að vera í hlutverki nýlendunnar sem hefur allar auðlindirnar en nýtur minnsta hluta þeirra? Svona svipuðu hlutverki og Afríka gengdi á tímum nýlendustefnunnar?

Nú í kringum sveitarstjórnarkosningar er ekki úr vegi að núverandi og væntanlegir forsvarsmenn okkar átti sig á þessu og myndi sér skoðun á hvað þurfi til að breyta þessari þróun. Við sunnlendingar eigum að sjá til þess að stærri hluti hagnaðar verða eftir heima í héraði í formi útsvars og eðlilegra gjalda til samfélagsins. Við eigum að hafa metnað til að gera meiri kröfur til arðsins en við gerum í dag. Eins og staðan er núna erum við sunnlenskt launafólk að tapa á þessum díl.

                                              Hjalti Tómasson