Við vinnum fyrir þig

Translate to

SAMIÐ UM LAUNAÞRÓUNARTRYGGINGU

Í apríl var undirritað samkomulag um launaþróunartryggingu til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Laun félagsmanna í aðildarfélögum ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um 1,7 prósent að meðaltali vegna samkomulagsins og laun félaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu um 0,4 prósent að meðaltali. Launaþróunartryggingin er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2019. Samkomulag þetta er mikilvægur liður í að tryggja að launaþróun félagsmanna hjá ríki og sveitarfélögum dragist ekki aftur úr launaþróun á almennum markaði.

Samkomulagið sem undirritað var í dag er gert á grunni rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá október 2015. Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Samtök atvinnulífsins.

Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að launaþróun þeirra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.

Horft er til þróunar launa á almenna markaðinum annars vegar og hjá þeim félagmönnum sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum hins vegar á tímabilinu nóvember 2013 til nóvember 2018.

Samkomulag um launaþróunartryggingu