Við vinnum fyrir þig

Translate to

Nýr framkvæmdastjóri ASÍ í heimsókn

Við fengum góða gesti hingað á skrifastofuna í vikunni.

Mættar voru til okkar nýráðinn framkvæmdastjóri ASÍ Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Kristín Ýr Gunnarsdóttir verkefnastjóri kynningar og upplýsingarmála, sem einnig er nýlega byrjuð á skrifstofu ASÍ og, Eyrún Björk Valsdóttir deildarstjóri MFA fræðslusviðs og starfsmannastjóri Alþýðusambandsins . Þeim var auðvitað tekið fagnandi enda bæði gott og gaman að fá góða gesti og ekki verra að fá að ræða beint við fólk úr forystunni og þá aðila sem móta og framfylgja stefnu verkalýðshreyfingarinnar. Svona samtöl milli okkar starfsmanna á plani og þeirra sem eru nær hringiðunni í höfuðborginni eru algerlega nauðsynleg og geta aldrei orðið til annars en að efla starfið.

Á stuttum fundi yfir kaffi og meðlæti var rætt um margt af því sem efst hefur verið á baugi í starfi ASÍ en ekki síður félaganna á staðnum. Við hér á skrifstofunni fengum tækifæri til að viðra skoðanir okkar og hvar okkur þætti að auka mætti áherslur miðað við okkar reynslu. Farið var vítt yfir sviðið, rætt var um launakjör á svæðinu, vinnustaðaeftirlit, samvinnu við ýmsar stofnanir, samvinnu félaga á svæðinu og hvernig skrifstofa ASÍ gæti stutt við starfið út í félögunum. Fyrir utan hversu skemmtilegar þessar konur voru þá fannst okkur bæði gagnlegt og fræðandi að fá þessa heimsókn og vonum við að framhald verði á í framtíðinni. Við vonum líka að þær hafi orðið einhvers vísari um lífið og verkalýðsbaráttuna út á landi.

Við viljum að endingu þakka fyrir heimsóknina og um leið bjóða þær Guðrúnu Ágústu og Kristínu Ýr velkomnar til starfa. Eyrúnu Björk þekkjum við vel frá fyrri tíð og höfum átt við hana ánægjulegt samstarf.