Við vinnum fyrir þig

Translate to

Nóatún og Víðir aftur með í verðkönnun verðlagseftirlitsins

Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í níu dagvöruverslunum víðsvegar um landið mánudaginn 15. apríl. Kannað var verð á 59 algengum matvörum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Hagkaupum en lægsta verðið var oftast að hjá Bónus. Í um helmingi tilvika var verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru undir 25% en dæmi eru um mun meiri verðmun á einstöku vörutegundum, t.d. er 50% verðmunur á 2 l. af Coke Cola, 50% verðmunur á kartöflumjöli og 135% verðmunur á frostnum jarðaberjum.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á ¼ l. rjóma frá MS, sem var ódýrastur á 219 kr. hjá Fjarðarkaupum en dýrastur á 228 kr. hjá Iceland, Nóatúni og Samkaupum Úrval, verðmunurinn er 9 kr. eða 4%. Mestur verðmunur í könnuninni var á perum sem voru ódýrastar á 225 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali en dýrastar á 589 kr./kg. hjá Víði, verðmunurinn er 364 kr. eða 162%.

Eins og áður sagði var hæsta verðið oftast að finna hjá Hagkaupum eða í 20 tilvikum af 59, hjá Nóatúni í 19 tilvikum af 59 og hjá Samkaupum-Úrvali í 17 tilvikum. Lægsta verðið var oftast að finna hjá Bónus eða í 31 tilviki af 59, þar á eftir kom Fjarðarkaup með lægsta verðið í 12 tilvikum. Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Fjarðarkaupum eða 58 af 59 og hjá Nóatúni voru til 55. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Iceland eða aðeins 46 af 59 og verslunin Víðir átti til 47 af 59.

Sem dæmi um aðrar vörur sem skoðaðar voru að þessu sinni má nefna að koffeinlaust duftkaffi 100 gr. frá Nescafé sem var ódýrast á 789 kr. hjá Iceland en dýrast á 1.109 kr. hjá Hagkaupum sem er 41% verðmunur. 1 l. af Flórídana morgunsafa var ódýrastur á 219 kr. hjá Bónus en dýrastur á 279 kr. hjá Fjarðarkaupum og Hagkaupum sem er 27% verðmunur. Túnfiskur í olíu frá ORA 185 gr. var ódýrastur á 259 kr. hjá Bónus en dýrastur á 324 kr. hjá Fjarðarkaupum sem er 25% verðmunur. Vinsæl þurrvara eins og haframjöl frá OTA 950 gr. var ódýrast á 444 kr. hjá Víði en dýrast á 499 kr. hjá Hagkaupum sem er 12% verðmunur.      

Sjá nánari upplýsingar í frétt  á heimasíðu ASÍ

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttaverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Holtagörðum, Krónunni Lindum, Nettó Akureyri, Iceland Engihjalla, Víði Hringbraut, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Hagkaupum Holtagörðum, Nóatúni Hringbraut og Samkaupum – Úrval Ísafirði. Kostur Dalvegi neitar þátttöku í könnuninni.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ