Við vinnum fyrir þig

Translate to

Miklar verðhækkanir á mjólkurvörum

Samanburður verðkannana sem verðlagseftirlitið framkvæmdi 13. júní og nú 5. september má sjá að mjólkurvörur hafa hækkað sl. 3 mánuði um 3%. Litlar verðbreytingar eru á öðrum vörum á tímabilinu, nema þá á ávöxtum og grænmeti sem breytast mikið í verði eins og svo oft áður.

Í öllum verslunum hefur vöruflokkurinn ostur, viðbit og mjólkurvörur hækkað, en má sjá t.d. hækkun á ósöltuðu smjöri á bilinu 2-4%. MS osturinn Ljótur hefur hækkað um 3-6%, Skyr.is próteindrykkurinn m/jarðab.- og bananabragði hækkað um allt að 7% og 500 g. af bláberjaskyri frá MS hefur hækkað um 3-4%.

Litlar verðbreytingar á öðrum matvörum
Af þeim matvörum sem skoðaðar voru eru flestar á sama, eða lægra verði miðað við seinustu mælingu. Í verslun Fjarðarkaups er sama verð og í júní í um 60% tilvika en hjá Nettó, Samkaupum-Úrval og Hagkaupum er sama verð í um helmingi tilvika af þeim vörum sem bornar eru saman. Hjá Bónus, Krónunni og Víði er sama verð í um þriðjungi tilvika.

Sem dæmi um vörur sem enn eru á sama verði og í byrjun sumars í öllum verslunum má nefna Lýsi heilsutvennu, Gæðabaksturs normalbrauð, Holta Bratwurst pylsur, Steeves maple syrup og salt frá Saltverk Reykjanesi.

Samanburð milli verslana má skoða á töfluformi hér.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miðast við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 13.6.16 og 5.9.16. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem í gildi eru á hverjum tíma í versluninni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Samkaupum Úrval, Hagkaupum, Víði og Iceland.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Sjá frétt á heimasíðu ASÍ