Við vinnum fyrir þig

Translate to

Laun á almennum vinnumarkaði 2011 voru 365 þúsund krónur á mánuði

Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru 365 þúsund krónur að meðaltali árið 2011. Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 200–250 þúsund krónur og var tæplega fjórðungur launamanna með laun á því bili. Þá voru rúmlega 60% launamanna með regluleg laun undir 350 þúsund krónum á mánuði. Regluleg laun karla voru 393 þúsund krónur að meðaltali á mánuði en regluleg laun kvenna 321 þúsund krónur.

Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru 469 þúsund krónur á mánuði
Heildarlaun þeirra launamanna sem teljast fullvinnandi voru að meðaltali 469 þúsund krónur á mánuði. Helmingur launamanna var með heildarlaun undir 418 þúsund krónum árið 2011 sem var miðgildi heildarlauna. Þá voru tæplega 30% launamanna með heildarlaun á bilinu 300-400 þúsund krónur. Greiddar stundir voru að meðaltali 43,4 á viku.

Laun karla og kvenna
Regluleg laun fullvinnandi karla voru 420 þúsund krónur að meðaltali á mánuði en regluleg laun fullvinnandi kvenna voru 361 þúsund krónur. Helmingur karla var með regluleg laun undir 347 þúsund krónum en um 60% kvenna.

Regluleg laun að viðbættri yfirvinnu, það er regluleg heildarlaun, voru 460 þúsund krónur hjá fullvinnandi körlum en 372 þúsund krónum hjá konum. Þá voru heildarlaun fullvinnandi karla 503 þúsund krónur en heildarlaun kvenna 400 þúsund krónur. Helmingur karla var með heildarlaun undir 447 þúsundum króna en það sama gilti um 75% kvenna.

Þær niðurstöður sem hér er greint frá byggjast á launarannsókn Hagstofu Íslands og ná til tæplega 30 þúsund launamanna á almennum vinnumarkaði í atvinnugreinunum iðnaði, byggingarstarfsemi, verslun, samgöngum og fjármálaþjónustu. Frekari umfjöllun um niðurstöðurnar má finna í nýjum Hagtíðindum um laun á almennum vinnumarkaði 2011.

Heimild: Hagstofa Íslands

Tekið af heimasíðu ASÍ