Við vinnum fyrir þig

Translate to

Köllum til ábyrgðar þá sem standa fyrir vaxtaokri á íslenskum lánamarkaði.

Að nýloknu 40. þingi ASÍ er margt sem fer í gegnum huga manns. Á þinginu voru 290 þingfulltrúar þeirra rúmlega 100.000 launamanna sem eru innan ASÍ. Yfirskrift þingsins var atvinna og verlferð í öndvegi.  Félagsmenn innan aðildarfélaga ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna, kemur fram fyrir hönd aðilarfélaganna, gagnvart stjórnvöldum, atvinnurekendum, stofnunum, hagsmunasamtökum og hvers konar alþjóðlegum samtökum.

Fyrir þinginu lágu þrjú megin málefni.

  • Atvinnumál, og þeim tengd mennta- og vinnumarkaðsmál.
  • Húsnæðismál.
  • Lífeyrismál.

Skipt var í hópa og allir þingfulltrúarnir lögðu sitt á vogarskálarnar í þeim umræðum og niðurstöðum sem lágu til grundvallar þeim ályktunum sem urðu síðan niðurstöður þingsins. Ályktanirnar sem samþykktar voru á þinginu eru samtas 7 og tekur á flestum þeim málefnum sem varða hinn íslenska launþega. Upplýsingar um þessa vinnu og ályktanir eru á heimasíðu ASÍ (www.asi.is)

Heitustu umræðurnar urðu um verðtrygginguna og tillögu Verkalýðsfélags Akranes um að afnema verðtrygginguna. Verkalýðshreyfingunni hefur verið legið á hálsi að vera talsmaður verðtryggingarinnar, hafa menn jafnvel gegnið svo langt að persónugera Gylfa Arnbjörnsson forseta ASÍ sem helsta talsmann verðtryggingarinnar. Miklar og heitar umræður urðu um þetta og sitt sýndist hverjum. Það er ekki nokkur vafi á því að  öllum ofbýður það lánaokur sem viðgengst á íslenskum lánamarkaði. Það er ekkert samhengi milli þeirrar láglaunastefnu sem virðist vera viðloðandi á íslenskum vinnumarkaði og þeirra lánakjara sem í boði eru. Það er staðreynd að allar forsendur eru brostnar varðandi afborganir af lánum og launin halda engan vegin í við þær hækkanir. Því miður einkenndust umræðurnar um að kenna einhverjum um innan okkar raða frekar en að setjast niður og gera tillögur að því hvernig við nálgumst þetta mikilvæga hagsmunamál okkar allra þ.e.a.s létta þessu vaxtaokri sem við búum við. „Við viljum“ Burt með verðtrygginguna ! Þak á vexti ! Lægri vexti ! Þetta eru allt kröfur sem við getum öll  verið sammála um að séu réttlátar.

En spurningin er þessi. Hvernig förum við að þessu? Þetta er ekki einfalt en upphrópanir gagnast okkur ekki neitt í þessari umræðu. Við þurfum að setjast niður og fá samnigsstöðu um þessi mál með hliðsjón af okkar eigin ávöxtunarkröfu. Skoða forsendur fyrir útreikningi verðtryggingar, eru  þær forsendur eðlilegar og sanngjarnar?  Þetta er stórt mál og hagsmunir lántakanda fyrir borð bornar en lánveitandi hefur alltaf pálmann í höndunum eða eins og við segjum svo oft axlabönd og belti. Hvernig getum við breytt þessu? Ekki með upphrópunum,  við skulum standa saman og kalla á þá sem standa fyrir þessu vaxtaokri til ábygðar.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags Selfossi.