Við vinnum fyrir þig

Translate to

Kjarval með í verðkönnun ASÍ á matvörum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum um allt land þriðjudaginn 5. júní. Á Suðurlandi fór fram verðkönnun í verslun Kjarvals á Hvolsvelli.  Verslanir Kjarvals hafa ekki verið áður með í könnun ASÍ á matvörum. Kjarval er með verslanir á Hellu, Hvolsvelli, Vík, Klaustri, Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn

 

Frétt ASÍ:

Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum um allt land þriðjudaginn 5. júní. Verslanirnar Kostur og Víðir neituðu að taka þátt í könnuninni. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun 10-11 Laugavegi eða í næstum helmingi tilvika en lægsta verðið var eins og áður sagði oftast að finna í verslun Bónus í Vallarhverfi. Í fjórðungi tilvika var yfir 75% verðmunur, en oftast var 25-75% verðmunur á hæsta og lægsta verði vöru á milli verslana.

Lágt vöruverð og vöruúrval fer ekki alltaf saman
Mest vöruúrval í könnuninni var í verslun Nóatúns Austurveri en þar fengust 83 af 89 vörutegundum sem skoðaðar voru, næstmest úrval var í verslun Hagkaupa í Kringlunni eða 81, Samkaup-Úrval, Nettó og Fjarðarkaup áttu til 80 vörutegundir af þeim 89 sem skoðaðar voru. Fæstar vörurnar í könnuninni voru fáanlegar í Kaskó á Húsavík og 10-11 Laugavegi eða 62 af 89, þar á eftir komu verslanirnar Samkaup-Strax, Kjarval og Bónus sem áttu til 69 af 89.

Þegar borin eru saman verð á milli verslananna á þeim 89 vörutegundum sem verðlagseftirlitið skoðaði var verslunin 10-11 Laugavegi með hæsta verðið í 39 tilvikum, Samkaup-Strax Hófgerði í 30 tilvikum og Kjarval á Hvolsvelli í 10 tilvikum. Bónus var með lægsta verðið á 41 vörutegund af þeim 89 sem skoðaðar voru, Fjarðarkaup var lægst í 19 tilvikum, Krónan í 18 og Nettó í 14.

Mestur verðmunur var á ávöxtum og grænmeti
Af þeim 12 tegundum af ávöxtum og grænmeti sem skoðaðar voru, var verðmunurinn yfir 100% í 10 tilvikum. Minnstur verðmunur var á plómum, sem voru ódýrastar á 689 kr./kg. í Kjarval á Hvolsvelli, en dýrastar á 788 kr./kg. hjá Samkaupum-Strax, verðmunurinn var 99 kr. eða 14%. Mestur verðmunur var á sítrusávextinum lime, sem var dýrastur á 799 kr./kg. í 10-11 en ódýrastur í Nettó í Mjódd á 314 kr./kg. verðmunurinn var 485 kr. eða 154%.

Minnstur verðmunur í könnunni var á medisterpylsu frá Goða sem var dýrust á 822 kr./kg. í Kjarval en ódýrust á 800 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum verðmunurinn var 22 kr. eða 3%. Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að mikill verðmunur var á líter af AB mjólk sem var dýrust á 329 kr. í 10-11 en ódýrust á 218 kr./l. í Bónus, verðmunurinn er 111 kr. eða 51%. Hálft Myllu Fittý samlokubrauð var dýrast á 498 kr. hjá Samkaupum-Strax en ódýrast á 287 kr. í Bónus sem er 74% verðmunur.

430 gr. af Wheetabix var ódýrast á 498 kr. hjá Krónunni og Fjarðarkaupum en dýrast á 699 kr. hjá Samkaupum-Strax sem gerir 40% verðmun. Fersk ýsuflök voru ódýrust á 1.249 kr./kg. hjá Bónus en dýrust á 1.779 kr./kg. hjá Hagkaupum sem er 42% verðmunur. Mjúkís ársins 2011 frá Kjörís „Kókosís“ var ódýrastur á 545 kr./l. hjá Hagkaupum en dýrastur á 899 kr./l. hjá 10-11 sem er 65% verðmunur. 60 ml. Tabasco sósa var ódýrust á 264 kr. hjá Fjarðarkaupum en dýrust á 353 kr. hjá Samkaupum-Strax sem er 34% verðmunur.

Hálfur lítri af Kristal plús m/sítrónu og engifer var ódýrastur á 145 kr. hjá Krónunni en dýrastur á 259 kr. hjá 10-11 sem er 79% verðmunur. Merrild kaffi var ódýrast á 857 kr. hjá Bónus en dýrast á 1.130 kr. hjá Samkaupum-Strax sem er 32% verðmunur. Tíðatapparnir frá o.b. Pro comfort super 16 stk. voru ódýrastir á 493 kr. hjá Kaskó en dýrastir á 616 kr. hjá Samkaupum-Strax sem er 25% verðmunur.

Sjá nánari upplýsingar í töflu. á heimasíðu ASÍ.

Í könnuninni var skráð hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Vallahverfi, Krónunni Granda, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Austurveri, Samkaupum-Úrvali Hrísalundi, Hagkaupum Kringlunni, Kaskó Húsavík, Kjarval Hvolsvelli, 10-11 Laugavegi og Samkaupum-Strax Hófgerði.

Verslunin Kostur og verslunin Víðir neituðu þátttöku í könnuninni
Kostur Dalvegi og Víðir heimiluðu ekki verðlagseftirlitinu að taka niður verð í verslunum sínum.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ