Við vinnum fyrir þig

Translate to

Kjaraviðræðurnar og aðkoma ríkisins

Í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir ber öllum saman um mikilvægi þess að efla atvinnustigið. Það er grunnurinn að kjarabótum til lengri tíma litið og forsenda þess að kjarasamningar náist.

Hagkerfið þarf innspýtingu fjármagns,  ekki síst erlendar fjárfestingar ef hagvöxtur á að aukast þannig að atvinnuleysið minnki og kaupmáttur aukist. Nú eru horfurnar frekar neikvæðar. Þess vegna er enn mikilvægara að ríkisvaldið beiti sér sérstaklega fyrir stórátaki og þá dugir ekki bara stækkun álversins í Straumsvík, Búðarhálsvirkjun, kísilmálmverksmiðja í Helguvík, hreinkísilverksmiðja í Grindavík og natríumklóratverksmiðja á Grundartanga. Þessar framkvæmdir skapa rúmlega tvö þúsund ársverk og um fimm til sex hundurð varanleg störf. Betur má ef duga skal. Nærtækasta, öflugasta og verðmætasta verkefnið er enn og aftur álverið í Helguvík, en þá þarf að virkja í neðri hluta Þjórsár. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Um þá framkvæmd virðist ekki vera pólitísk sátt í núverandi ríkisstjórn. Því verður að breyta.

Sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir þeim vanda að vera í óvissu með sitt rekstrarumhverfi meðan ekki er lokið umræðunni um hvort kvótaskerðing kemur til framkvæmda á næstu misserum eða ekki. Fullyrt er að útvegurinn haldi að sér höndum í viðbótarfjárfestingum upp á allt að 10 milljarða á ári meðan málið er í pólitískri óvissu. Vissulega geta menn haft sínar skoðanair á kvótakerfinu, en mestu skiptir að þau sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki sem starfa í greininni geti búið við eins örugg starfsskilyrði og mögulegt er. Annað er ótækt. Vel rekin og örugg fyrirtæki munu þá eflast meðan önnur verr rekin munu hverfa úr greininni eins og gengur.

Tekið af heimasíðu SGS