Við vinnum fyrir þig

Translate to

Halldóra endurkjörin

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags var haldinn í gærkvöldi, mánudaginn 5. maí.

Fjölmenni var og setið í hverju sæti í sal og fram á gangi. Venjuleg aðalfundarstörf tóku eðlilega mestan tíma. Formaður las sína skýrslu og þar kom meðal annars fram að það fjölgar jafnt og þétt í félaginu og starfsemin er vaxandi. Mikil áhersla hafi verið lögð á að efla trúnaðarmannakerfi félagsins og skapa tengsl við vinnustaði og atvinnurekendur. Ársreikningar félagsins voru kynntir og lagðir fyrir fundinn. Nokkur umræða skapaðist um reikningana en rekstur félagsins stendur í miklum blóma og gefur félaginu aukið svigrúm í þjónustu sinni við félagsmenn. Í því ljósi lagði stjórn fram ákveðnar tillögur fyrir fundinn um breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs. Þar var ákveðið að bæta í ýmsa styrki og að auki kemur inn nýr liður varðandi tannlæknakostnað. Einnig kom fram að félagið hugar að kaupum á einu orlofshúsi til viðbótar en mikil ásókn er í þessi hús og fer vaxandi. Stjórn Bárunnar hefur líka ákveðið að halda verði niðri til hagsbóta fyrir félagsmenn en verð á gistingu hefur ekki verið hækkað síðustu fjögur ár. Þess má geta að ársreikningar eru aðgengilegir á skrifstofu félagsins.

Stærsta mál fundarins var þó kosning um formann. Sitjandi formaður bauð sig fram til endurkjörs en einnig barst framboð frá Vernharði Stefánssyni mjólkurbílstjóra. Frambjóðendurnir fluttu ágætar framboðsræður og síðan var gengið til kosninga. Niðurstaðan varð sú að Halldóra var endurkjörin formaður til næstu tveggja ára. Greinilegt var á þessari góðu fundarsókn að félagsmenn láta sig félagið miklu varða og vilja taka virkan þátt í að móta og fylgja eftir stefnu félagsins. Einn stjórnarmaður gekk úr stjórn, Loftur Guðmundsson en hann heldur til nýrra starfa í öðru landi og getur því ekki helgað félaginu krafta sína lengur. Stjórn og starfsmenn Bárunnar þakka Lofti fyrir gott samstarf. En maður kemur í manns stað og í hans stað tekur sæti í stjórninni Jón Þröstur Jóhannesson en hann hefur verið varamaður í stjórn.

Frábærum aðalfundi lauk síðan með skemmtilegu uppistandi Sólmundar Hólm en hann á ættir að rekja til Hveragerðis. Hann náði upp frábærri stemmningu og flestir héldu brosandi út í vorkvöldið og vonandi sáttir við niðurstöður fundarins.