Við vinnum fyrir þig

Translate to

Góð þátttaka í 1. maí hátíðarhöldum á Selfossi

Góð þátttaka var í 1. maí hátíðarhöldunum á Selfossi í gær sem hófust með kröfugöngu frá Tryggvatorgi. Hestamenn úr Sleipni fóru fyrir göngunni. Hátíðardagskráin fór fram fyrir utan húsnæði stéttarfélaganna að Austurvegi 56. Björgvin Franz Gíslason stýrði dagskránni og skemmti gestum ásamt ævintýrapersónum úr Stundinni okkar. Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags var ræðumaður dagsins.

Gunnlaugur Bjarnason nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands kynnti sýn unga fólksins á málefnum verkalýðshreyfingarinnar. Félagar úr Bifreiðaklúbbi Suðurlands mættu með fornbíla og Íslandus Ísbar fagnaði deginum með andlitsmálningu og afslætti á ís. Um tvöhundruð manns mættu í kaffi hjá stéttarfélögunum  að dagskrá lokinni. Ræðu Halldóru má sjá í heild hér fyrir neðan:

Kæru félagar til hamingju með daginn.

Þegar ég var beðin að flytja ræðu 1. maí þá hugsaði ég hvað get ég talað um sem passar þessum baráttudegi og fólk hefur þolinmæði til að hlusta  á. Að sjálfsögðu var málið sára einfalt. Þegar ég leiddi hugann að þessum alþjóðlega baráttudegi, hvernig hann kom til og hver tilgangurinn með honum er fylltist ég ákveðnu stolti. Saga er eitthvað sem stenst tímans tönn og er ekki hægt að taka frá okkur.

Á þingi Evrópskra verkalýðsfélaga í París árið 1889 var samþykkt tillaga frá Frökkum að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks. Frakkar lögðu til að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda til að fylgja eftir kröfum um 8 stunda vinnudag og aðrar umbætur á kjörum sínum. Það kemur ekki á óvart að Frakkar skyldu leggja þetta til enda eru þeir seinþreyttir til verkfalla.

Valið á þessum degi styðst við rótgróna hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí þennan dag. Að  heiðnum sið var hann táknrænn fyrir endalok vetrarins og upphaf sumarsins.

Þann 31.október 1896 ritaði skáldið Einar Benediktsson  „Ef verkamennirnir færu að halda saman, mundu auðmennirnir vanda sig betur og græða það á dugnaði og fyrirhyggju, sem þeir vinna nú á ódýrleik allra starfsmanna við framleiðslu og iðnað. Og því fyrr sem félagsskapur verkamanna byrjar, því fyrr kemst hinn starfandi, arðberandi kraftur í þjóðinni til þeirra valda, sem honum ber með réttu, jafnt hér eins og annars staðar í heimi.“

Árið 1923 var fyrst gengin kröfuganga hinn 1. maí á Íslandi. Dagurinn varð lögskipaður frídagur á Íslandi árið 1972.

Hinn 1. maí gengur launafólk undir rauðum fána og leikinn er alþjóðasöngur verkalýðsins, Internasjónalinn.Upprunaleg merking þessara tákna er fyrst og fremst krafa um breytingar og réttlátara þjóðfélag. Rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna.

Verkalýðshreyfinginn á Íslandi telur aðeins rétt rúm 100 ár.

Mér þykir gaman að segja frá því að Báran, stéttarfélag rekur sögu sína til 1903 með stofnun Bárunnar á Eyrarbakka eða í 108 ár.

Fjölmörg þeirra réttinda sem fólki þykja sjálfsögð í dag þurfti mikla baráttu og oft fórnir til að öðlast. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, veikindarétt, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt,  uppbyggingu velferðarkerfisins og margt fleira. Stéttarfélögin hófu síðan byggingu orlofshúsa um allt land. Fyrstu orlofshúsin risu í Ölfusborgum 1962.

Jafnrétti var stór þáttur í baráttunni og þá helst að sérstakir kvennataxtar yrðu afnumdir. Hafðist það með lagasetningu árið 1957.

1920 heyrist í fyrsta sinn krafan um 8 stunda vinnudag hérlendis,. Eftir hörð átök á vinnumarkaði 1942 fékkst 8 stunda vinnudagur inn í samninga, vinnuvikan var því komin niður í 48 stundir. 1972 var 40 stunda vinnuvika loks lögfest. Í kjarasamningum árið 2000 lögðu mörg félög áherslu á að stytta enn frekar vinnuvikuna.

Við stofnum ASÍ árið 1916 voru 1500 félagar innan sambandsins. Í dag eru félagarnir um 100.000.

Þegar maður sér hvað áunnist hefur á þessum 100 árum og hvað við getum myndað mikinn slagkraft með samstöðu fyllist maður stolti yfir því að tileyra þessum stærstu samtökum launafólks á Íslandi.

Það má segja að stéttarfélagsbarátta sé lifandi og óvægin barátta þar sem menn mega aldrei láta deigan síga. Kannski höfum við sofnað á verðinum fyrst krafan um 200.000 króna lámarkslaun er að setja allt á hvolf í þjóðfélaginu. Er virkilega svo að einhverjum finnist 200.000, of mikið?

Kjarasamningar hafa verið lausir síðan 1. desember síðastliðinn og ekki sér fyrir endann á samningalotunni. Við eigum við ramman reip að draga.  Framan af í baráttunni hefur Verkalýðshreyfingin ekki verið nógu samstíga og hafa samböndin  verið með ólíkar áherslur og kröfur í kjarasamningum. Með því að draga fiskveiðistjórnunarkerfið inn í kjarasamninga hafa Útgerðarmenn lyft grettistaki við að þjappa verkalýðshreyfingunni saman og kann ég þeim bestu þakkir fyrir.

Í dag blasir við sú staða að allt stefni hér í allsherjarverkfall. Auðvitað er þetta staða sem engin óskar eftir, en þessi samningalota hefur verið algjört limbó sem ekki er hægt að una lengur við. Samtök atvinnulífsins hafa vægast sagt boðið upp á visst tómlæti og algjört virðingarleysi gagnvart viðsemjendum þ.e.a.s hinum vinnandi manni.

Við höfum verið að kanna hug okkar fólks til verkfallsaðgerða, og það er mikill baráttuhugur í fólki. Síðan kreppan skall á hefur almenningur í landinu sýnt mikið æðruleysi, tekið á sig kaupmáttarskerðingar, launalækkanir og atvinnumissi. En nú segjum við stopp hingað og ekki lengra.

Að lokum vil ég segja þetta

Nú er farið að birta og sumarið ekki langt undan.

Það felast tækifæri í öllum aðstæðum, tækifærið okkar núna er að standa saman og nýta  slagkraftinn til samstöðu um aukna atvinnu og bættra kjara.

Takk fyrir.