Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fróðleg ráðstefna um ræstingar.

Starfsgreinasamband Íslands hélt ráðstefnu um ræstingar að Sætúni 1 í Reykjavík þriðjudaginn 20. nóvember sl.

Mæting var góð og fjölmörg erindi flutt sem vöktu mikla athygli. Merkilegust erindin komu þó frá tveim fulltrúum Bárunnar, þeim Jóhönnu Guðmundsdóttur, ræstingarkonu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Kristrúnu Agnarsdóttur, þjónustustjóra hjá ISS Ísland. Þær ræddu um stöðuna í ræstingarmálum, launakjör, starfssaðstöðu og ekki síst, framtíðarsýn sína. Óhætt er að segja að framlag þeirra vakti mikla athygli og greinilegt að fundarmenn höfðu mikið gagn af því að heyra raddir fólksins sem er að vinna við þessi störf. Það mátti heyra af fjölmörgum spurningum sem að þeim var beint eftir erindin. Einnig höfðu framsögu tveir forsvarsmenn stærstu hreingerningafyrirtækjanna á markaðnum. Það voru Guðmundur Guðmundsson, forstjóri ISS Ísland og Ari Þórðarson, framkvæmdarstjóri Hreint ehf.

Í ljós kom að að sumu leiti liggja hagsmunir fyrirtækjanna saman við hagasmuni félagsmanna okkar,  má nefna að ófullkominn útboðsmarkaður gerir fyrirtækjum, sem ekki gæta að því að fara eftir samningum, auðveldara fyrir að bjóða í verk á mun lægra verði sem fæst oft fram með því að halda niðri launakostnaði. Þetta þarf að laga því ekki var annað að heyra á þessum tveimur fyrirsvarsmönnum en áhugi væri af þeirra hálfu, að efla ræstingastarfið og nefndu báðir að gera þyrfti ræstingar að sér fagi og helst þyrfti að koma því inn í skólakerfið.

Þeir töldu einnig að gera þyrfti gæðum ræstinga meiri gaum og ef tækist að auka vægi gæða móti verði þá yrði það til að gera starfið verðmætara og þar af leiðandi, bjóða upp á hærri laun.

Í lok ráðstefnunnar var hópnum skipt upp í vinnuhópa þar sem tekin voru til nánari umfjöllunar nokkur atriði sem fram höfðu komið.

Niðurstaða úr þeirri vinnu mun liggja fyrir fljótlega og verður birt á þessum vettvangi og vonandi víðar.