Við vinnum fyrir þig

Translate to

Frábært kjaraþing stéttarfélaganna

Báran, stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands héldu sameiginlegt kjaraþing á Hótel Selfoss í gærkveldi, 23. september.

Á þinginu fóru fram fjörugar umræður um kjaramál og unnið var í hópum í ýmsum málum þeim tengdum. Mikil vinna var lögð í að marka stefnu félaganna í komandi kjaraviðræðum og hvaða áherslur fulltrúar á þing ASÍ  22 – 24 . október næstkomandi, skuli leggja inn í þá vinnu sem þar verður unnin.

Fram kom í umræðum að mikil tortryggni ríkir í garð stjórnvalda og hörð gagnrýni á framlagt fjárlagafrumvarp. Töldu ýmsir fundargesta að löngu væri orðið tímabært að verkalýðshreyfingin risi upp af svefninum og léti nú til sín taka af alvöru.

Félögin vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem sáu sér fært að mæta og ekki þá síður til starfsmanna fundarins sem skrifstofa Alþýðusambandsins lagði til en það voru þær Henný Hinz sem átti framsögu um stéttarbaráttu í fortíð, nútíð og framtíð, Eyrún Björk Valsdóttir og Sigurlaug Gröndal. Einnig var framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins Drífa Snædal með framsögu og stjórnaði hópastarfi.

Edda Björgvins kom síðan í lok fundar og hélt frábæran fyrirlestur sem hét; Húmor á vinnustað – dauðans alvara.

Tilgangur fundarins var, eins og fram hefur komið, að fá fram hjá félagsmönnum vilja þeirra og skoðanir á hvaða málefni og áherslur félögin fara með inn í væntanleg þing ASÍ og inn í kjarasamninga vetrarins.

Fundir sem þessir eru algerlega bráðnauðsynlegir til að forystumenn félaganna fari með skýran vilja félagsmanna sinna inn í þá vinnu sem framundan er.

IMG_1220 IMG_1237 IMG_3067 IMG_3071 IMG_3073 IMG_3079 IMG_3118