Við vinnum fyrir þig

Translate to

Formannskjör: Frá Vernharði Stefánssyni

Verkalýðsmál hafa alltaf verið mér hugleikin. Ég kýs að líta á þau sem baráttu til lengri tíma eða sem einhverskonar langhlaup. Við sjáum ekki endamarkið en við setjum okkur markmið og reynum að ná þeim.

Ég býð mig fram til formannskjörs í Bárunni Stéttarfélagi. Í gegnum tíðina hef ég verið ötull í verkalýðsmálum. Fyrst sat ég í nokkur ár í stjórn Ökuþórs og síðan í stjórn Bárunnar og þekki því vel til í málefnum verkalýðsfélagana. Ég hef starfað sem bílstjóri hjá Mjólkurbúinu í 20 ár og var trúnaðarmaður þar lengi. Áður vann ég í Sláturfélagi Suðurlands.

Síðustu kjarasamningar fóru í rafræna kosningu sem var til þess fallin að efla þátttöku félagsmanna sem var þó með eindæmum dræm. En af hverju tóku svona fáir þátt? Var það vegna þess að kerfið var ekki í lagi eða var áhugaleysi félagsmanna um kjör sín þess valdandi? Efla þarf félagsvitund fólks. Það getur haft áhrif með því að taka þátt, t.d. með því að mæta á fundi, ræða málin, kjósa fulltrúa félagsins í stjórn og nefndir og greiða atkvæði um kjarasamninga. Á sama hátt gæta þarf vel að þjónustu við félagsmenn. Viðmótið þarf að vera gott og þjónustan lipur. Réttast er að líta á stjórn og starfsmenn þjónustuskrifstofu sem þjóna félagsmanna.

Kjaramálin eru þungamiðja félagsins.  Síðustu kjarasamningar gáfu ekki mikið en eins og oft áður virðast ýmsir hópar ætla að ná umtalsvert meiri hækkunum en verkafólk fékk. Það er því mikið verk framundan við að auka kaupmátt launa verkafólks.

Með baráttukveðju býð ég gleðilegt sumar,

Vernharður Stefánsson