Við vinnum fyrir þig

Translate to

Allt að 46% verðmunur á skólabókum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nýjum og notuðum skólabókum fyrir framhaldsskóla í bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Farið var í 6 verslanir og skoðað verð á 32 algengum nýjum námsbókum og borið saman innkaups- og útsöluverð á 25 notuðum námsbókum á þremur skiptibókamörkuðum.

Griffill oftast með lægsta verðið 
Af nýjum skólabókum átti A4 Skeifunni til flestar bækur eða 30 af 32, Eymundsson Kringlunni og Griffill Laugardalshöll áttu til 28 titla. Í helmingi tilvika var á milli 30-45% verðmunur á hæsta og lægsta verði verslananna. Griffill var oftast með lægsta verðið á nýjum bókum í þessari verðkönnun en 17 titlar af 32 voru ódýrastir hjá þeim. A4 kom þar á eftir með lægsta verðið á 12 titlum. Eymundsson var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum eða á 25 titlum af 32.
Mestur verðmunur í könnuninni af nýjum bókum var á bókinni “Uppspuni: Nýjar íslenskar smásögur“, en bókin var dýrust á 4.299 kr. hjá  Eymundsson en ódýrust á 2.950 kr. hjá Griffli sem er 1.349 kr. verðmunur eða 46%. Minnstur verðmunur var að þessu sinni 7% á enskubókinni “In line for reading“, hún var var dýrust á 1.799 kr. hjá Eymundsson en ódýrust á 1.685 kr. hjá Forlaginu Fiskislóð og A4. 

Mikill munur á verði skiptibókamarkaðanna
Af þeim þremur bókaverslunum sem starfrækja einnig skiptibókamarkað, var A4 oftast með hæsta útsöluverðið á notuðum skólabókum sem skoðaðar voru eða á 19 titlum af 25. Grifill var oftast með lægsta útsöluverðið eða á 18 titlum og Eymundsson á 11. Á skiptibókamörkuðunum var álagningin mest hjá A4, en munur á innkaupsverði og útsöluverði var á bilinu 60-80%. Hjá Eymundsson og Griffli var munurinn á bilinu 30-50%. Í um 40% tilvika er sama innkaups og útsöluverð á notuðum bókum, hjá Griffli og Eymundsson.

Sjá nánari niðurstöður í töflu 

Námsmenn ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum við upphaf skólaárs. Úrval notaðra bóka á skiptibókamörkuðum var mjög misjafnt eftir verslunum þegar könnunin var gerð en getur breyst með skömmum fyrirvara.

Kannað var verð á nýjum bókum í eftirtöldum verslunum: Bóksölu stúdenta Háskólatorgi, Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni, Griffli Laugardalshöll, Forlaginu Fiskislóð og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti. Kannað var verð á notuðum bókum í eftirtöldum verslunum: Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni og Griffli Laugardalshöll. 

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum eða við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ