Við vinnum fyrir þig

Translate to

Þokkaleg mæting í kröfugöngu á Selfossi

Þrátt fyrir rigningu og rok tóku tæplega 100 manns þátt í kröfugöngu dagsins á Selfossi en gengið var frá húsnæði stéttarfélaganna að Hótel Selfossi þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá og kaffiveitingar í boði stéttarfélaganna.  

Um 300 manns mættu  á Hótel Selfossi þar sem dagsskráin fór fram.  Kristín Á. Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélag Íslands og Freydís Ösp Leifsdóttir nemi voru ræðumenn dagsins Karitas Harpa söng nokkur lög.  Leikhópur Menntaskólans á Laugarvatni sýndi  atriði úr Konungi ljónanna.

Kristín gagnrýndi harðlega einkavæðingu stjórnvalda m.a. í heilbrigðisgeiranum.  Þar sem markmiðin snúast um að græða á fólki. Fram kom hjá henni að græðgi tröllríður öllu þar sem greiddir eru bónusar í milljörðum. Hún fjallaði einnig um alvarlega stöðu á íbúðarmarkaði þar sem ungt fólk á enga möguleika á að geta keypt húsnæði.

Freydís Ösp ræddi um ábyrgð Íslendinga í innkaupum. Hún gagnrýndi að ekki er hægt að fá almennilegar upplýsingar um uppruna vörunnar. Íslendingar hugsa ekki um hvaðan varan kemur og hvernig er staðið að kjörum þeirra sem búa hana til. Hún tók dæmi um erlendar fataverksmiðjur þar sem illa er farið með verkafólk. Íslenskir grænmetisbændur eru dæmi um góða fyrirmynd þar þeir skrá uppruna vörunnar.  Hún gerir kröfu um tryggingu fyrir því að starfsumhverfi þeirra sem koma að gerð vörunnar sé ekki skaðlegt og að fólkið sem framleiðir vöruna hafi fengið mannsæmandi laun fyrir.  Freydís benti á að kjólinn hennar væri merktur á þann hátt að hægt er að nálgast þessar fyrrgreindu upplýsingar um ábyrga stjórnun gagnvart launafólki.

 

Ræða 1. maí – Freydís

 

Komið þið sæl öll og til hamingju með daginn.

Segir maður það ekki annars á 1. maí? til hamingju með daginn? eða á maður frekar að segja eitthvað eins og áfram við, áfram verkalýðurinn?

Ég hreinlega veit það ekki og ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei á ævinni farið í kröfugöngu og ég hef bara einu sinni verið við 1. maí hátíðahöld. Það var fyrir 2 árum og ég var að vinna. Ég held að mín kynslóð sé ekkert sérstaklega mikið fyrir kröfugöngur. Við notum aðrar leiðir eins og samfélagsmiðla til að vekja athygli á okkar hjartans málum.

Ég gæti staðið hér og lofsamað stéttafélögin en mér finnst ég ekki þurfa þess. Það er vitað mál að þeirra störf eru mikilvæg og við notum daga eins og 1. maí til þess meðal annars að minna okkur á mikilvægi þeirra. Ég veit það. Þótt ég sé ekki orðin tvítug þá hef ég persónulega reynslu af þjónustu stéttarfélags en ég ætla ekki að fara nánar út í það hér.  

Ég ætla hins vegar að fjalla um stóru myndina.

Við íslendingar hugsum um okkur sem neytendur og ef út í það er farið erum við stórneytendur. Við förum til dæmis til útlanda eingöngu í þeim tilgangi að versla og við bíðum klukkutímum saman í röðum eftir alls konar varningi eins og kleinuhringjum og strigaskóm. Það er pínu eins og við vitum ekkert hvað við eigum að gera við peningana okkar. Við kaupum bara það sem okkur langar í óháð því hvort okkur vanti nokkuð.

Þetta er náttúrulega klikkun. 

Á íslandi eru nokkrar verslanir sem eru hluti af stærri verslunarkeðjum úti í heimi. Ég efast ekki um að starfsfólk þessara útibúa hér á íslandi fái laun samkvæmt kjarasamningum. Ef ekki hefur fólk allavega greiðan aðgang að þjónustu stéttarfélagana og getur auðveldlega leitað réttar síns. Þannig er það ekki alls staðar.

Af því ég var að tala um neysluhyggju okkar íslendinga langar mig að benda á það sem við pælum ekki í. Við pælum ekkert í því hver bjó til vörurnar sem við notum, í hvaða aðstæðum og hvort manneskjan fékk laun fyrir.  

Síðasta sumar fór ég á ungmennaráðstefnu á vegum amnesty international í Finnlandi og þar hitti ég mann sem komið hafði til finnlands sem hælisleitandi fyrr á árinu. Þegar hann var á flótta kom hann meðal annars við í Tyrklandi. Þar þurfti hann að vinna fyrir sér til þess að eiga fyrir áfrahaldandi ferð sinni. Í Tyrklandi eru fataverksmiðjur sem framleiða fatnað fyrir margar stórar verslunarkeðjur. Hann vann í einni slíkri og sagði að þar hefðu aðstæður verið hörmulegar. Vaktirnar langar, fáar og stuttar pásur fyrir skítalaun. Þar störfuðu líka börn sem unnu í skiptum fyrir eina máltíð á dag og horn til að sofa í.

Slæmar aðstæður í fataverksmiðjum einskorðast ekki við Tyrkland. Árið 2013 hrundi átta hæða bygging í Bangladesh og varð fleiri hundruð manns að bana. Þar voru framleidd föt fyrir mörg helstu tískufyrirtæki heims. Einnig eru til dæmi um þrælkun í fataiðnaði í Kína og Indlandi og örugglega fleiri löndum.

Þegar við verslum í matinn þá viljum við geta rakið vörurnar sem við kaupum. Við viljum vita hvort grænmetið okkar sé erlent eða íslenskt og á íslensku grænmeti stendur yfirleitt frá hvaða gróðurhúsi það kemur.

Innan í fatnaði er lítill miði sem á stendur framleiðsluland. Það eru einu upplýsingarnar sem við fáum um fötin okkar. Ef ég vil vera ábyrgur neytandi þá vil ég fá að vita meira. Ég vil fá að vita hver bjó til flíkina og í hvaða aðstæðum. Ég vil fá tryggingu fyrir því að starfsumhverfi þeirra sem komu að gerð hennar sé ekki skaðlegt og ég vil fá tryggingu fyrir því að fólkið sem framleiddi flíkina hafi fengið mannsæmandi laun fyrir.

Við búum í samfélagi þar sem peningar ráða flestu og það má segja að peningar séu atkvæðaseðill neytandans. Fyrst við getum beðið klukkutímum saman í vondu veðri í röðum eftir skóm og kleinuhringjum þá held ég að við getum auðveldlega valið að stuðla að betra lífi fyrir þá sem framleiða hlutina okkar.

Ég er í rosa fínum kjól í dag og ég ætla að stíga aðeins til hliðar svo þið getið séð hann betur.

Þessi kjóll er með svokallaða sanngirnisvottun eða “fair trade” vottun. Innan í honum er ekki bara lítill miði sem á stendur framleiðsluland heldur upplýsingar hvaðan bómullin í honum kemur, alls kyns vottannir OG hvar megi nálgast nánari upplýsingar. Á heimasíðu fyrirtækisins eru svo ótal upplýsingar um framleiðsluferlið allt frá ræktun bómullarinnar. 

Ég legg til að það verði ákveðin tíska að velta fyrir sér hver bjó til vöruna áður en hún er keypt, fékk sá sem bjó vöruna til sanngjörn laun eða var hann kannski þræll eða lítið barn. Í dag, 1. maí er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Við skulum því hugsa um stóru myndina og hvernig við getum haft áhrif á kjör fólks annars staðar í heiminum.