við vinnum fyrir þig
Header

Siðferðisrof og lítilsvirðing

mars 2nd, 2018 | Posted by thor in Fréttir

Fundur trúnaðarráðs Bárunnar, stéttarfélags sem haldinn var í  gærkvöldi sendi frá sér eftirfarandi ályktun:

Trúnaðarráð Bárunnar, stéttarfélags harmar það siðferðisrof og þá lítilsvirðingu sem einkennir íslenskt samfélag.

Á meðan aðilar vinnumarkaðarins ræða um forsendubrest og hvað sé til ráða birtast fréttir af launum og/eða sporslum þingmanna, æðstu embættismanna ríkisins og þeirra sem raða sér í efstu lög launa með „löglegri“ sjálftöku.

Misskipting og sjálftaka sérstakra hópa viðgengst meðan almennt launafólk hefur sætt grímulausum skerðingum meðal annars á húsnæðis, vaxtabótum og atvinnuleysisbótum. Persónuafsláttur hefur gjörsamlega tapað verðgildi sínu. Sá ávinningur sem hlotist hefur af áherslum verkalýðshreyfingarinnar á lægstu launin hafa stjórnvöld tekið til baka með skerðingum sem ekki sér fyrir endann á.

Samtökum atvinnulífsins er tíðrætt um þann kaupmátt sem áunnist hefur og telja ófært að bregðast við forsendubresti sem ekki er fyrir hendi að þeirra mati. Samtök atvinnulífsins hafa vægast sagt dregið lappirnar frá síðustu samningum og ekki unnið að þeim málum sem þó var samið um að yrði gert milli samninga. Báran, stéttarfélag fagnar yfirlýsingu um breytt vinnubrögð og skorar á SA að koma að borðinu nú þegar og ljúka síðustu samningagerð.

Íslenskt láglaunafólk er ávallt látið bera ábyrgð á þeim meinta „stöðugleika“ sem bæði ríkisvaldið og Samtök atvinnulífsins leggja áherslu í sínum málflutningi. Báran, stéttarfélag kallar eftir upprætingu á því siðferðisrofi, virðingarleysi og misskiptingu sem viðgengst í samfélaginu og gerir kröfu um samfélagslega ábyrgð allra.

 

Selfossi, 2. mars 2018.

You can follow any responses to this entry through the RSS 2.0 Both comments and pings are currently closed.