Við vinnum fyrir þig

Translate to

Meginmarkmið Starfsgreinasambandins í höfn með nýjum kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins

Á heimasíðu Starfsgreinasambandsins kemur fram að meginmarkmið samninganefndar SGS var að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu auknar kjarabætur. Sá samningur sem undirritaður var í gær er veigamikill þáttur í þeirri vegferð, upphaf að endurreisninni

Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld þurftu að koma að málinu saman svo væntingar gangi eftir og verðbólga drekki ekki kjarabótunum. Krafan um 200 þúsund króna lágmarkslaun strax náðist ekki. Hún kemur hins vegar í áföngum, fer úr kr. 165 þús. í kr. 182 þús. 1. júní og svo 193 þúsund 1. des. 2012 og loks í 204 þús. krónur 1. febrúar 2013, en hækkunin er tæp 24% á samningstímanum.

 

Það var skýr krafa Starfsgreinasambandsins allan tíman að krónutöluhækkun kæmi á launataxtana, enda kemur það þeim sem vinna á strípuðum launatöxtum mun betur. Það hefur því tekist enn eina ferðina að verja og bæta kaupmátt hinna lægst launuðu, allt að 13% á samningstímanum. Þá hefur einnig tekist að ná fram umframhækkun í fiskvinnslu og ræstingu, en reiknitölur í bónus- og ákvæðisvinnu hafa setið eftir í kjarasamningum liðinna ára. Það er nú lagfært verulega.